Hjónin Gianmarco Antonuzzi og Clementine Bouveron kynntust þegar þau unnu saman hjá vínbónda í Alsace héraði Frakklands. Þar kynntust þau líka og lærðu hvernig hægt er að gera vín sem er hrein náttúruleg afurð, hreinn vínsafi, þar sem ekkert er tekið og engu bætt við.
Árið 2004 keyptu þau lítið land í Lazio héraði steinsnar suður af Toskana, í hlíðunum fyrir ofan Bolsena vatn. Þar var fyrir gamall vínviður sem þau nýttu til víngerðar en hafa síðan einnig plantað nýjum. Heildarframleiðslan er þó lítil, einungis 25.000 flöskur á ári sem deilist á fjölmörg og ólík vín enda ríkir mikil sköpunargleði á bænum.
Á skömmum tíma hafa hjónin skipað sér sess meðal áhugaverðustu og þekktustu náttúruvínbænda Ítalíu. Lífefld ræktun (biodynamic) er stunduð og allt kapp lagt á að umhverfið sé eins og einn stór garður þar sem ríkir náttúrulegt jafnvægi með fjölbreyttri ræktun af ýmsu tagi.
Smelltu hér til að sérpanta hjá Vínbúðinni eftirfarandi vín frá Le Coste og fá sent í vínbúð að eigin vali hvar á landi sem er (án aukakostnaðar):